Tuesday, February 8, 2011

Höfum ekki áhyggjur af SA

Eigendur loðnuverksmiðjanna munu semja við starfsmenn sína. Hagsmunir eigendanna eru einfaldlega margfalt meiri en þetta smotterí sem starfsmenn fara fram á. Launakostnaður vegna kröfu starfsmanna nemur kannski 50 milljónum á ári fyrir allar 8 loðnubræðslurnar. Þetta samsvarar svona 2 loðnuförmum. Heldur einhver í alvörunni að það verði af verkfalli? Ég minni einnig á tillöguna sem ég setti fram hér á blogginu um gengistryggingu launa. Ef slík stefna verður tekin upp þá þýðir hún meðaltals hækkun launa um 16% samkvæmt mínum útreikningum. ( En ég set þann fyrirvara að ég hef aldrei verið góður í stærðfræði). Finnst einhverjum 16% of mikið? Hagurinn af slíkri leið er sá að ef gengið lækkar þá hækka launin en ef gengið hækkar þá lækka launin í landinu. Aðal kjaraskerðing íslenskra launamanna hefur alltaf orðið vegna gengisfellinga annars vegar og lítils eftirlits með því að gengishækkanir skili sér til neytenda hins vegar. Gengistrygging launa vegur á móti slíkum freistingum og veitir stjórnvöldum aðhald við að tryggja hér stöðugleika.